Lög félagsins

1. gr.
Nafn félagsins

Nafn félagsins er Félag áhugafólks um Smith–Magenis heilkenni (SMS). Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins

Markmið félagsins er að gæta hagsmuna einstaklinga með SMS og aðstandenda þeirra.

Félagið nær markmiði sínu með því m.a. að:

  • Að styðja einstaklinga með SMS og fjölskyldur þeirra
  • Að veita fræðslu, ráðgjöf og leiðbeiningar til fjölskyldna einstaklinga með SMS
  • Að auka þekkingu og vekja athygli á þörfum einstaklinga með SMS meðal sérfræðinga, heilbrigðisstarfsmanna, stjórnvalda og almennings
  • Vera talsmaður einstaklinga með SMS í tengslum við yfirvöld og aðrar stofnanir
  • Að starfa í samvinnu við erlend félög um SMS

3. gr.
Félagar

Félagið er öllum opið sem hafa áhuga og vilja styðja markmið félagsins.

4. gr.
Aðalfundur

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn í mars ár hvert. Til hans skal boða skriflega með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Tilkynning um aðalfund með netpósti telst fullnægjandi boðun. Dagskrá skal fylgja fundarboði. Aðalfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Rétt til fundarsetu og kosninga hafa skuldlausir félagsmenn.

Fastir liðir á aðalfundi skulu vera:

  • Kosning fundarstjóra og ritara
  • Skýrsla stjórnar
  • Samþykkt reikninga félagsins
  • Lagabreytingar
  • Kosning stjórnar
  • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
  • Ákvörðun um árgjald
  • Önnur mál

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Lögum þessum má breyta á aðalfundi. Til þess þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins fyrir lok janúar og skulu þær fylgja fundarboði.

5. gr.
Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skipa fimm menn og tveir til vara. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn. Aðrir stjórnarmenn og varamenn eru kosnir til tveggja ára, þannig að tveir aðalmenn og einn varamaður eru kosnir á hverjum aðalfundi. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skiptir stjórnin með sér verkum og kýs varaformann, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda úr sínum hópi. Boða skal varamenn á stjórnarfundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt. Stjórnin er ályktunarhæf þegar minnst þrír eru mættir. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns.

Formaður getur boðað stjórnarfund hvenær sem hann telur henta. Gerðir stjórnar skulu bókfærðar og haldin fundargerð.

Prókúruhafi er stjórn félagsins eða sá stjórnarmaður sem hún veitir slíkt umboð.

6. gr.
Slit félagsins

Til þess að leggja niður félagið þarf samþykki tveggja aðalfunda og skulu félagsslitin samþykkt með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða á hvorum fundi. Geta skal sérstaklega áforms um félagsslit í fundarboði. Verði félaginu slitið skulu eignir þess ganga til Félags einstakra barna.